Content on this page requires a newer version of Adobe Flash Player.

Get Adobe Flash player


Áherslur

Samvinna og samstarf

Samstarf og samvinna við bæjarbúa á að vera leiðarljós í stefnumótun framtíðarmála í Garðabæ.
Við eigum að móta okkur skýra sýn á framtíðina með virkri þátttöku allra bæjarbúa.
Með því að nýta íbúaþing, rafræna skoðanakönnun inn á ,,Minn Garðabæ”, líkt og gert hefur verið með góðum árangri varðandi vetrarfrí í skólum bæjarins og endurskoðun skólastefnu. Viðtækt samráð við bæjarbúa er lykill að farsælli stefnu sem tryggir gegnsæja stjórnsýslu.

Fjölskyldan í fyrirrúmi

Við eigum að tryggja að öllum börnum líði vel í Garðabæ og að þau geti fundið sér farveg í íþrótta- eða tómstundastarfi í bænum sem þarf að vera í samfellu við skólastarfið. Einnig eigum að stuðla að því að þeir unglingar sem ekki finna sér farveg í íþrótta- og tómstundastarfi fái tækifæri til að stunda tómstundir t.d. í samvinnu við Garðalund. Stöndum vörð um okkar ágæta bæjarfélag um leið og við tryggjum fjölbreytt samfélag þar sem börnin þroskast í leik og starfi, foreldrarnir ala upp börnin sín í öruggu umhverfi og afi og amma fái notið áhyggjulausra ævikvölda.

Atvinnurekstur í bænum

Framsækið og blómlegt atvinnulíf er ein af forsendum fyrir árangri í rekstri sveitarfélaga. Nauðsynlegt er að Garðabær leiti sífellt nýrra leiða til að tryggja fyrirtækjum öruggan rekstrargrundvöll með samkeppnishæfum álögum.

Í sátt við náttúru og umhverfi

Eitt af séreinkennum Garðabæjar er nándin við náttúruna. Við eigum að stuðla að góðu samspili milli náttúru, byggðar og íbúa. Heiðmörkin, Vífilstaðavatnið, Urriðaholtsvatnið, hraunið, lækirnir og ströndin eru allt dýrmætar náttúruperlur sem við eigum að umgangast með virðingu og umhyggju þannig að komandi kynslóðir Garðbæinga fái notið til jafns við okkur.

Gleði og ánægja

Aukum samstöðu og samheldni meðal bæjarbúa með því að efla þá viðburði þar sem Garðabæingar koma saman til að gleðjast og fagna. Gerum Jónsmessuhátíðina að stórhátíð með virkri þátttöku Garðbæinga um leið og við eflum lista og menningarlíf í bænum.

Byggjum áfram á traustum grunni

Í því umhverfi sem við búum við í dag er það kappsmál okkar Garðbæinga að standa vörð um trausta fjármálastjórn, lágmarksálögur og öflugt skólaumhverfi. Þannig tryggjum við að Garðabær verði áfram fyrirmynd annarra sveitarfélaga varðandi lífskjör og aðbúnað allra bæjarbúa. Traust fjármálastjórn og áhersla á lágmarksálögur á íbúa verða áfram megin markmiðið. Við þær þjóðfélagsaðstæður sem við búum við í dag er nauðsynlegt að forgangsraða verkefnum í sátt og samvinnu við bæjarbúa. Nauðsynlegt er að sýna kjark og þor til að draga úr kostnaði í stað þess að auka álögur á íbúa, án þess þó að skera niður í velferðarmálum.

Traust og heiðarleiki

Með aukinni kröfu frá samfélaginu um opna og gegnsæja stjórnsýslu eigum við að setja fram skýr gildi í samskiptum milli íbúa og stjórnsýslunnar. Því er mikilvægt að mótaðar verði siðareglur fyrir bæjarfulltrúa, þannig að störf og háttsemi þeirra verði hafin yfir allan vafa. Í siðareglunum skal fjallað um starfsskyldur kjörinna fulltrúa, valdamörk, hagsmunaárekstra, gjafir, fríðindi og trúnað.